Vorþing Norðurlandaráðs í Alþingi

blog

Það er viðeigandi að í dag, á degi Norðurlandanna, er vorþing Norðurlandaráðs haldið í Reykjavík. Verður það í fyrsta sinn sem þingfundur ráðsins er haldinn í Alþingishúsi Íslendinga, en hjá hinum norrænu ríkjunum hefur það jafnan þingað í þjóðþingum. Það er sérstakt fagnaðarefni, bæði fyrir Alþingi og þjóðina alla og samstarf hennar við aðrar norrænar þjóðir.

Þess má geta að í dag eru liðin nákvæmlega fimmtíu ár frá því að Helsingfors -samningurinn var samþykktur, sem er grundvallarsamningur norrænnar samvinnu.

Norrænir þingmenn hafa áður fundað í Alþingi, árið 1947, þegar Norræna þingmannasambandið hélt þar fund. Helstu málin sem rædd voru á þeim fundi voru fiskveiðimál og alþjóðlegt samstarf þingmanna, tvö mál mikilvæg Íslendingum.

Á dagskrá þingfundar Norðurlandaráðs í dag eru velferðarmál, jafnréttismál og norðurslóðir, sem jafnframt eru mikilvæg mál fyrir okkur Íslendinga. Fagnefndir Norðurlandaráðs afgreiddu í gær í Reykjavík nýjar tillögur um norðurslóðir í takt við norrænar áherslur. Verði tillögurnar samþykktar verða þær að tilmælum til allra norrænu ríkisstjórnanna og Norrænu ráðherranefndarinnar um samstilltar aðgerðir, tilmælum sem ríkisstjórnirnar og ráðherranefndin leitast við að uppfylla.

Af tillögum Norðurlandaráðs um norðurslóðir vil ég sérstaklega nefna hér tillögu um sameiginlega stefnu Norðurlanda í málefnum norðurslóða. Norrænu ríkin hafa öll sett fram stefnu um norðurslóðir þar sem er að finna sameiginlega sýn á mörgum sviðum en einnig ólíka sýn á öðrum. Norðurlandaráð vill beina þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær sameinist um sameiginlega stefnu í málefnum norðurslóða svo vinna megi að sameiginlegum markmiðum. Með þeim hætti telur Norðurlandaráð að Norðurlöndin geti aukið áhrifamátt sinn á alþjóðavettvangi í málefnum norðurslóða.

Markmið tillögunnar er ekki að mynda nýjan alþjóðavettvang heldur að sameinast um pólitíska framtíðarsýn og styrkja samstarf norrænu ríkjanna í Norðurskautsráðinu, þar sem þau gegna mikilvægu hlutverki, en eiga jafnframt í góðu samstarfi við önnur aðildarríki ráðsins. Í þessu sambandi má nefna sameiginlega norræna framtíðarsýn um umhverfismál og um lífskjör íbúa norðurslóða, þar á meðal frumbyggja. Mikilvægt er að framþróunin á svæðinu, sem er hröð, verði á þann hátt að þar haldist í hendur mikilvægir hagsmunir íbúa, náttúru og nýtingar auðlinda norðurslóða.

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 23. mars 2012)