Landamærahindranir ræddar í norrænu þjóðþingunum

blog

Í gær fór fram á Alþingi umræða um landamærahindranir á Norðurlöndum en slíkar umræður hafa þegar farið fram eða munu á næstunni fara fram í öllum þjóðþingum Norðurlanda. Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þekki ég vel hversu miklum vandræðum slíkar hindranir geta valdið fólki sem flyst milli Norðurlandanna og fyrirtækjum sem starfa þvert á landamæri þeirra. Oft er um að ræða óvissu um flutning ýmissa réttinda yfir landamæri og margir lenda á milli kerfa og þurfa með töluverðri fyrirhöfn að leita réttar síns. Það er ekki aðeins mikilvægt að við norrænir þingmenn fjarlægjum þær landamærahindranir sem eru til staðar í dag, heldur þarf við alla löggjöf og kannski sérstaklega við innleiðingu Evrópugerða, að gæta samræmis milli Norðurlandanna svo við séum ekki sífellt að skapa nýjar hindranir.

Ég læt hér ræðu mína úr umræðunum fylgja með:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir skýrslur þeirra og fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Talsverð umræða hefur verið um það, bæði meðal norrænna þingmanna og norrænna ráðherra, að á Norðurlöndunum séu sífellt að skapast nýjar landamærahindranir og það sé nauðsynlegt að herða vinnuna við að fækka þeim og afnema þær, það mál þurfi að setja í forgang. Það er reglulegur liður á málaskrá forsætisráðherra allra norrænu landanna og í kjölfar umræðu á hinum norræna vettvangi fóru forseti Norðurlandaráðs, formaður norrænu ráðherranefndarinnar og formaður þeirrar nefndar sem fer með landamærahindranamálin fram á það við forseta norrænu þjóðþinganna að gefinn yrði sérstakur tími í öllum þjóðþingunum til að ræða þessi málefni og hvernig megi vinna að þeim með markvissari hætti. Ég þakka forsetunum fyrir að hafa orðið góðfúslega við því. Það er sannarlega ekki einfalt mál að skipuleggja sams konar umræður í þjóðþingum í átta löndum á sama tíma eins og tekist hefur og er full ástæða til að þakka fyrir það.

Ástæðan fyrir því að þessi mikla áhersla er lögð hér á er sú að þingmenn og forustur þjóðþinganna og ríkisstjórnanna þekkja það og vita að þó að landamærahindranir séu út af fyrir sig oft býsna tæknilegs eðlis og snúist að miklu leyti um skrifræði og lausnir á reglugerðum eða tæknihindrunum einhverjum, er hin hliðin á því að þær bitna á fólki. Það er fólk sem verður fyrir landamærahindrununum og það getur haft býsna alvarlegar afleiðingar fyrir það vegna þess að ef ekki er vel að gætt getur fólk einfaldlega misst mikilvæg réttindi sem skipta grundvallarmáli í daglegu lífi þess, m.a. rétt til félagslegrar aðstoðar, óljóst getur orðið um hvar framfærsluskyldan er og fólk jafnvel orðið fyrir því að vera vísað úr landi.
Þess vegna skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir íbúa Norðurlandanna og auðvitað fyrst og fremst þá sem sækja nám og vinnu á milli landanna, að unnið sé hratt og markvisst í þessu máli þannig að þau vandamál sem skapast séu leyst jafnóðum. Þar hefur löggjafinn talsverðu hlutverki að gegna og við þurfum að huga að því með hvaða hætti við getum starfað að lagasetningu á Norðurlöndunum þannig að ekki skapist í sífellu nýjar landamærahindranir, því að það er til lítils að leysa þær sem fyrir eru ef við erum alltaf að skapa nýjar og nýjar hindranir í störfum okkar.

Þess vegna er það álit mitt og margra annarra að við lagasetningu á Norðurlöndunum þurfum við sérstaklega að huga að því í hvert og eitt sinn hvort ný löggjöf leiði af sér nýjar landamærahindranir á því svæði.

Við höfum fengið tiltölulega nýlega rýni á vegum forsætisráðuneytisins og lagaskrifstofunnar þar á þau stjórnarfrumvörp sem hér eru lögð fram og er eðlilegt að það sé fastur liður í rýni frumvarpa að kanna það áður en stjórnarfrumvörp eru lögð fram hvort af þeim leiði nýjar landamærahindranir.
Við höfum starfsmenn í Stjórnarráðinu sem sinna sérstaklega norrænum málefnum og hafa þekkingu þar á sem gætu lagt gjörva hönd á plóg hér. Auðvitað er það ekki síst mikilvægt við meðferð mála sem koma frá utanríkisráðuneytinu, því að það er jú innleiðing á tilskipunum á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur ekki síst skapað nýjar landamærahindranir þegar Norðurlöndin fara ólíkar leiðir við að innleiða slíkar reglugerðir. Auk þess að rýna okkar eigin frumvörp betur og kanna í hvert og eitt sinn hvort við séum að skapa nýjar hindranir á milli Norðurlandanna, þurfum við að auka samvinnu á milli Norðurlandanna um það með hvaða hætti Evróputilskipanir eru innleiddar og gæta þess í undirbúningi lagasetningar að menn tali saman yfir landamæri norrænu landanna. Og þótt menn hafi ákveðið svigrúm við innleiðingu Evróputilskipana þurfa þeir að gæta þess af fremsta megni að skapa ekki nýjar landamærahindranir á Norðurlöndum við innleiðinguna.

Það er ekki bara mikilvægt að vinna á heimavelli og í aukinni samvinnu á milli norrænu þjóðþinganna, heldur er ekki síður mikilvægt að við undirbúning Evrópulöggjafarinnar séu norrænir þingmenn vakandi og fylgist með því sem verið er að gera í Evrópuþinginu. Við í þinghópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði, sem ég veiti forustu, höfum lagt áherslu á að reglulega sé samráð á milli þingmanna frá Norðurlöndunum, af norrænu þjóðþingunum, við norrænu þingmennina í Evrópuþinginu til að ganga úr skugga um hvaða löggjöf og reglur verið er að undirbúa á Evrópuvettvangi sem haft geta áhrif á næstu árum á lagaumhverfi okkar, og kanna með hvaða hætti við getum reynt að hafa mótandi áhrif á þá löggjöf meðan hún er á undirbúningsstigi. Það getur verið mikilvægt að koma að sjónarmiðum sínum áður en hinn evrópski réttur er orðinn til. Til þess að gera það er beinskeyttast að beita áhrifum norrænu þingmannanna, og eftir atvikum þingmanna Eystrasaltsríkjanna í Evrópuþinginu, með nánu samstarfi við þá.

Hvaða máli skiptir það? Það getur til að mynda skipt gríðarlega miklu máli um frjálsa verslun og viðskipti á milli landanna og það skiptir verulega máli um að skapa vinnu og hagvöxt í öllum norrænum löndum. Tökum byggingariðnað sem afmarkað þar dæmi þar um. Það er því miður svo og verður að játa að reglur í norrænu löndunum um byggingar og byggingarefni eru með ýmsum og ólíkum hætti. Það gerir það að verkum að fyrirtæki sem framleiða vörur fyrir þennan markað geta oft og tíðum ekki beint þeim vörum inn á allan hinn norræna markað heldur aðeins hluta hans eða þær þurfa að uppfylla sérkröfur til að komast inn á aðra hluta hans. Það er augljóst að af því er gríðarlegt óhagræði. Það dregur úr samkeppni og möguleikum á því að efla framleiðslu og fyrirtæki á þessu sviði á öllum Norðurlöndunum og er því sameiginlegt hagsmunamál fyrir svæðið allt að farið sé yfir þetta regluverk og leitast við að fella niður tæknihindranir sem eru á því að flytja húshluta eða byggingarefni, hvort sem það eru gluggar, hurðir, einangrunarefni eða hvað það nú kann að vera, á milli Norðurlandanna til þess að lækka kostnað í þeim geira til hagsbóta fyrir fyrirtæki og heimili á öllum Norðurlöndunum. Það verður til þess að auka samkeppni en auðvitað líka til þess að skapa fyrirtækjunum stærri heimamarkað og þar af leiðandi meiri möguleika á að vaxa í þá stærð þannig að þeir geti látið að sér kveða á alþjóðlegum mörkuðum.

Varðandi landamærahindranir fjöllum við býsna mikið um þá einstaklinga sem til okkar leita og verða fyrir því að fá ekki framfærslu eða stuðning í fæðingarorlofi eða fá ekki inngöngu í háskóla eins og þeir eiga rétt á eða annað slíkt. Það er niðurstaða mín eftir nokkurra ára setu í Norðurlandaráði að það sé mjög mikilvægt að borgararnir hafi einhvern skýran farveg fyrir umkvartanir sínar í þessum efnum af mörgum ástæðum. Ein er sú að það getur verið kostnaðarsamt að reka mál og oft og tíðum á hér í hlut fólk sem er um skamman tíma í tilteknu landi og er ekki mikilli aðstöðu til þess að sækja rétt sinn.

Ég hef því flutt tillögu á vettvangi forsætisnefndar Norðurlandaráðs um að við komum á fót embætti norræns umboðsmanns, svipað og embætti umboðsmanns Alþingis, þar sem Íslendingar geta sent inn erindi sín ef þeir eru óánægðir með hvernig brotið hefur verið á þeim í stjórnsýslunni. Þá getum við á norrænum vettvangi beint slíkum erindum til norræns umboðsmanns sem kannar málin og gengur í þau fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.