Þingræða: Hvers vegna þetta fálæti um málefni fatlaðra?

Þingræða

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hún hefur núna skilað forgangslista sínum og þar er hvorki að finna fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun. Eiga þau mál þó að vera til.

Tilskipun um bann við mismunun tók gildi í Evrópusambandinu árið 2000. Nú eru liðin 16 ár án þess að þau réttindi fatlaðs fólks hafi verið lögfest á Íslandi. 153 ríki veraldarinnar hafa fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem aftast standa í þessu efni. Við erum eitt af fjórum ríkjum í Evrópu sem ekki hafa tryggt réttindi fatlaðs fólks samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hverju sætir þetta fálæti? Hvers vegna eru málefni fatlaðs fólks ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Þau liggja fyrir, þau eru til, það þarf ekkert að gera nema koma með þau hingað inn og samþykkja þau. En við finnum forgangsmál um timbur og timburvörur, virðulegur forseti. Já, og við finnum evrópskar tilskipanir frá árinu 2013 þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar af því að þau eru í forgangi.

Ég skora á þingmenn úr öllum flokkum sem vilja vinna að réttindum fatlaðs fólks að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og gera það að kröfu úr öllum þingflokkum að sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks, sem lögfest hafa verið um alla Evrópu og sem þrír fjórðu hlutar (Forseti hringir.) af öllum ríkjum veraldarinnar hafa þegar fullgilt, verði líka látin taka gildi á Íslandi.


Ræða flutt í umræðum um störf þingsins 29. apríl 2016.