Blaðagreinar

Stórkostlegur árangur

Blaðagreinar

Þegar við fyrir átta árum gengum í þingsal að hlusta á stefnuræðu Geirs Haarde var dökkt og dimmt úti. Þegar við gengum svo út aftur í skugga hrunsins hafði snjór lagst eins og teppi yfir allt og kominn hvítur kaldur vetur.

Olíuskipið í Stavanger fékkst ekki afgreitt, lyfjaskammtar voru afhentir til skemmri tíma í senn, Íslendingar erlendis áttu í erfiðleikum með framfærslueyri, Seðlabankinn tæknilega gjaldþrota, bankakerfið hrunið og enginn vildi lána Íslandi. Í kjölfarið annað hvert fyrirtæki landsins gjaldþrota og tugþúsundir heimila í uppnámi. Atvinnuleysi. Hættan stærst sú að ekkert byðist annað en okurvextir sem jafnharðan ætu þau verðmæti sem við sköpuðum. Fátæktargildra.

Þúsundir þrekvirkja

Aðeins átta árum síðar hefur vinnuafl skort lengi, Ísland er að verða nettó eignaland sem á meira í útlöndum en það skuldar, staða heimila og fyrirtækja gjörbreytt og vöxtur verið viðvarandi um árabil. Svolítið skemmtilegt að hugsa um að við sem oft belgjum okkur yfir litlu höfum enn ekki metið að verðleikum þann gríðarlega árangur sem við höfum náð.

Um allt land unnu fólk og fyrirtæki þúsundir þrekvirkja. Greiðslumiðlun varin, viðskiptasamböndum haldið opnum, fyrirgreiðslu aflað, velferðarþjónustu haldið uppi gegnum erfiðan niðurskurð, fjárhagur fjölda fyrirtækja og heimila endurreistur o.s.frv. Á spítölum, leikskólum, fyrirtækjum, heimilum voru tugþúsundir að vinna hvert þrekvirkið af öðru sem saman skópu árangurinn. Og þó við hefðum öll viljað gera betur og hraðar er þrekvirkið samt.

Í minn hlut kom að flytja frumvarp til síðari neyðarlaganna, lög sem læstu erlenda kröfuhafa inni. Það tókst á einu kvöldi með samstilltu átaki fjölda fólks. Það byggði á vinnu enn fleiri við undirbúning, en skilaði fyrst árangri eftir þrotlausa vinnu stórra hópa við framkvæmd laganna. Þar er kominn tími til að segja sem er að rétt eins og fólk í fjármálakerfinu gerði mörg mistök fyrir hrun gerði það margt mjög vel  eftir það.

Nýtt upphaf

Hægri öflunum tókst ekki að einkavæða bankana á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka, þrátt fyrir stóran þingmeirihluta. Heldur ekki spilla aðildarviðræðum, eyðileggja rammaáætlun um náttúruvernd né afhenda kvótann um alla framtíð í samningum við sægreifana. Þess vegna höfum við tækifæri í kosningunum til að leggja stóru línurnar um framtíðina. Öllu skiptir að efnahagslegur árangur okkar verði ekki aftur eyðilagður með nýfrjálshyggju og skammsýni ört vaxandi misskiptingar eins og 2007. Efnahagslegan árangur okkar treystum við best með varanlegum, róttækum kerfisbreytingum um aukið lýðræði, heilbrigðara bankakerfi, aukinn jöfnuð og opinbert velferðarkerfi. Aldrei aftur 2007.

 

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 9. september 2016.

Ríkisstjórn góða fólksins

Blaðagreinar

Merkileg tímamót hafa orðið í stjórnmálum í sumar. Stór þingmeirihluti hægri manna hefur sjálfur gefist upp, stytt eigið kjörtímabil og boðað til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað því kjósendur hans og þungavigtarfólk unir ekki afturhaldssemi og einangrunarhyggju sem þar hefur orðið ofan á og kallar á Viðreisn. Forystukonur þriggja flokka, Samfylkingar, Pírata og VG, hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðis­flokkinn að loknum kosningum. VG hefur tekið vel í uppboðsleið í kvótamálum, sem verið hefur stefna Samfylkingarinnar og nú einnig Pírata.

Tækifæri
Í þessu felast gríðarleg tækifæri til málefnalegra framfara í landinu. Fyrst og fremst felast þau í kosningunum sjálfum og þeim skýru valkostum sem þar verða. Annars vegar framhald núverandi stjórnarstefnu með ríkisstjórnarflokkunum, hins vegar öfl sem eiga sameiginleg fjölmörg hugsjónamál um gjörbreyttar áherslur. Þó flokkar í framboði geti orðið margir og stjórn fjölflokka skrifar málefnaskráin sig nánast sjálf.

Stóru málin
Efling Landspítala og annarrar opinberrar heilbrigðisþjónustu, ásamt takmörkunum á kostnaði sjúklinga, verður stærsta málið. Stóraukið framboð af góðu húsnæði á sanngjörnum kjörum fyrir ungt fólk kemur þar næst og knýjandi þörf er á ný fyrir félagslegar lausnir í húsnæðismálum. Þriðja stóra velferðarverkefnið verður einföldun almannatrygginga og trygging fyrir því að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarabóta og aðrir á sama tíma.

Þetta eru fjárfrek verkefni og þess vegna sérstakt fagnaðarefni ef samstaða er að takast milli stjórnarandstöðuflokka um að ríkið fái eðlilegar tekjur af auðlindum landsins með uppboðum, því auknar tekjur þar geta staðið undir miklu. Auk þess er augljós tekjuöflun af ferðamönnum og allra ríkasta fólkinu í landinu svo misskipting hætti að aukast.

Góðu málin
Fleiri mál eru hins vegar mikilvæg en þau fjárfreku. Stjórnarskráin, friðlýsing miðhálendisins, bætt samkeppnisstaða skapandi greina, græna hagkerfisins og annarra vaxtarsprota atvinnulífs, þjóðar­atkvæðagreiðslur, fullgilding mannréttindasáttmála, afnám málþófs á Alþingi, o.s.frv. o.s.frv. Hér verður listin sú að takmarka sig því það er grundvallaratriði ef við náum saman meirihluta að hann ætli sér ekki um of.

Til þess að fullkomna trúverðugan valkost við núverandi stjórn væri brýnt að segja fólki sem fyrst hvaða verkefni önnur en stóru velferðarmálin verða í forgangi. Að önnur mál séu ekki í forgangi þýðir ekki að þeim verði ekki hreyft. Fjölmörg mál eru einfaldlega þannig að ekkert veitir af heilu kjörtímabili til að undirbúa þau. Enda löngu tímabært að við hugsum til lengri tíma en eins kjörtímabils í senn.

Skýrir valkostir
Þó ég vilji sameina flokka þarf það ekkert að vera verra að hafa þriggja eða fjögurra flokka stjórn en tveggja. Undanfarin kjörtímabil hefur sýnt sig að stórir þingflokkar eru margklofnir, húsbóndavald lítið og ráðherrar valdaminni en var. Tal um einingu tveggja flokka stjórna er í besta falli lélegur brandari eftir tvö síðustu kjörtímabil. Hitt væri eftirsóknarvert ef Píratar, Samfylking, VG og jafnvel fleiri framboð gætu haft sameiginlegar áherslur fyrir kosningar um verkefnaskrá næsta kjörtímabils. Því kjósendur eiga skilið skýrari valkosti.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu 1. september 2016.

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Framtíðarstjórnin

Blaðagreinar

Samfylkingin var stofnuð til þess að hugsjónin um jöfnuð, frelsi og samábyrgð yrði sterkt afl í íslensku samfélagi. Hvort sem flokkurinn hefur mælst stór eða lítill hef ég talað fyrir samstarfi við önnur félagshyggjuöfl. Því að það þarf meirihluta til að stjórna.

Til að kjósendur hafi skýran valkost er samstaða stjórnarandstöðuflokkanna mikilvæg fyrir komandi kosningar. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á baktjaldamakk eftir kjördag. Samfylkingin á að segja skýrt að atkvæði greitt flokknum sé atkvæði með samstarfi við félagshyggjuflokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn sem er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála. Þá þurfum við að ná saman við aðra fyrir kosningar um hvernig stjórnarskrármálinu verði komið í heila höfn, svo að því megi treysta að ný ríkisstjórn ljúki því lykilverkefni.

(meira…)

Forystulaust sumarland

Blaðagreinar

Sumardagurinn fyrsti eykur okkur vongleði um bjartari daga og betri tíð. Það er ekki vanþörf á í vetrarlok þegar forystuleysið við landsstjórnina er orðið miklu meira en vandræðalegt. Nú síðast hefur forsetinn hætt við að hætta á þeirri forsendu beinlínis að óvissan sé algjör um landsstjórnina. Forsætisráðherrann hraktist nýlega frá vegna hneykslis sem rúið hefur tvo aðra ráðherra trausti. Enginn veit hver stjórnar Framsóknarflokknum. Forsætisráðuneytið í höndum flokks sem ekki hefur stuðning meðal þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir vita ekki sjálfir hvaða mál þeir þurfa að afgreiða. Ofan á þetta allt bætist að ríkisstjórnin veit ekki hvenær hún ætlar að fara frá og getur ekki sagt kjósendum hvenær þeir fái að kjósa. Ríkisstjórnin virðist alveg hafa gleymt því að hlutverk hennar er að hafa forystu og eyða óvissu en ekki hanga í reiðanum og hrekjast undan veðrum. Auðvitað ætti að kjósa í vor því að óbreyttu verður landið forystulaust í allt sumar engum til gagns.

(meira…)

Þegar skorið var undan Alþingi

Blaðagreinar

Forsætisráðherra reynir nú að láta landsmenn ræða hvar Landspítalahúsið eigi að vera, svo þeir hætti að ræða lélegan aðbúnað á spítalanum, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fjárskort og óhóflegan kostnað sjúklinga. Því elsta smjörklíputrix í heimi er að láta Íslendinga rífast um staðsetningu á húsi, svo það sem máli skiptir gleymist sem er innihaldið.

Þegar byggja átti þinghús 1879 vildu menn reisa það á Arnarhóli. Landshöfðingi hafði sérhagsmuni af beit kúa á Arnarhólstúninu og hafnaði. Þá tóku þeir grunn í Bankastrætisbrekkunni, en var svo sagt sem var að það væri ómöguleg staðsetning. Þrátt fyrir aðvaranir var þá tekinn grunnur þar sem bílastæði er nú við Vonarstræti. Sá fylltist af vatni eins og spáð hafði verið. Byggðu menn því það Alþingi sem nú stendur beint fyrir framan hitt húsið í bænum, Dómkirkjuna. Þá höfðu glatast svo miklir fjármunir í rifrildinu öllu að neðsta hæðin var skorin af Alþingishúsinu í sparnaðarskyni.

Látum það ekki líka henda Landspítalann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars

Það þarf að breyta kerfinu sem hrundi

Blaðagreinar

Í kjölfar hrunsins reis mjög hávær krafa í þjóðfélaginu um gagngerar breytingar á stjórnkerfinu. Það var sannarlega ætlun síðustu ríkisstjórnar að ráðast í slíkar breytingar. Um þúsund manns tóku þátt í þjóðfundi þar sem lýðræðisskipan landsins var rædd og í kjölfarið var kosið sérstakt stjórnlagaþing. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 undirstrikaðist skýr vilji þjóðarinnar til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þessum leiðangri tókst því miður ekki að ljúka. Vonandi nær sú stjórnarskrárnefnd sem nú er að störfum saman um tillögur að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni og sérstaklega það sem þjóðaratkvæðagreiðslur varðar. Hvort sem það tekst eða ekki er ljóst að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þurfa að vera forgangsmál í næstu kosningum og verða að veruleika á nýju kjörtímabili.

(meira…)

Áskorunin

Blaðagreinar

Kerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sama fjármálakerfi og féll. Það er sami veiki gjaldmiðillinn, sama vonda verðtryggingin, sömu okurvextirnir og bráðum líka myntkörfulánin, sama fákeppni á bankamarkaði sem nú á aftur að einkavæða. Vaxandi spilling og þenslumerkin eru hvarvetna. Sama stýrivaxtapólitík heldur uppi óhóflegum kostnaði fyrirtækja og heimila og laðar erlenda spákaupmenn aftur til landsins. Grátbrosleg fullkomnun yrði svo ef sömu hóparnir eignuðust sömu bankana aftur.

Þessi þróun er í anda þeirra sem telja að við höfum bara orðið fórnarlömb alþjóðlegrar kreppu, hér hefði allt reddast ef ekki væru útlöndin. Eftir því sem frá líður eflast líka þau gríðarlegu sérhagsmunaöfl sem hafa tryggt sér hæsta raunvaxtastig í okkar heimshluta og vilja það kerfi áfram óbreytt.

Pólitísk forysta
Ekki voru gerðar nægilegar breytingar í kjölfar hrunsins og það dugar ekki að bíða eftir evrunni með þær.

Þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil þurfum við pólitíska forystu um að breyta kerfinu. Vextir eru hér of háir enda fjármálakerfið of dýrt. Brjóta þarf upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána.

Ræða þarf raunvaxtakröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald o.s.frv.

Breytingar á bankakerfinu eru nefnilega stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi, því þó Íslandi vegni blessunarlega vel geta ytri skilyrði breyst hratt og kreppur koma aftur og aftur.

En þetta er líka stærsta áskorun heimsins því reglurnar núna auka sífellt og sjálfkrafa ójöfnuð og sóun, fyrir fáránlega auðsöfnun örfárra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar sl.

Einkavæðing bankanna taka tvö

Blaðagreinar

Það er mikilvægt að læra af dýrkeyptri reynslu sem við höfum glímt við frá einkavinavæðingu bankanna fyrir rúmum áratug. Spillingin og skammsýnin sem hana einkenndi kostaði m.a. tæknilegt gjaldþrot helmings fyrirtækja landsins, skuldir tugþúsunda heimila stökkbreyttust og landið átti ekki gjaldeyri til að standa í skilum. Upphaf ógæfunnar má ekki síst rekja til hinnar gamalkunnu aðferðar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að skipta bönkunum á milli sín. Þessvegna er skynsamlegt að hafa áhyggjur þegar þessir sömu flokkar eru nú aftur uppteknir af bankasölu.

Hvað hefur breyst?

Um leið er sanngjarnt að spyrja hvort eitthvað hafi breyst og hvort við höfum ástæðu til að treysta þessum flokkum betur nú en þá. Óskandi að svo væri en því miður bendir margt til annars. Þrennt skal hér nefnt af mörgum slæmum fyrirboðum. Í fyrsta lagi samþykkti Alþingi á síðasta kjörtímabili rannsókn á einkavæðingu bankanna. Núverandi stjórnarflokkar hafa neitað að framkvæma hana. Í öðru lagi hefur fjármálaráðherra reynt að leggja niður Bankasýsluna og flytja umsjón með eignarhaldi inn í ráðuneyti til sín. Og í þriðja lagi höfum við horft upp á sölu eignarhluta eins og í Borgun og Símanum sem skapa ekki vonir um jafnræði, gagnsæi og fagmennsku við einkavæðingu. Áhyggjurnar minnka ekki við það þegar lögð er ofuráhersla á að semja við erlenda kröfuhafa um að fá bankahlutbréf frekar en að taka við greiðslu í peningum með stöðugleikaskatti.

Óbreytt bankakerfi

Undraveröld íslensku krónunnar er þannig  að eignarhald viðskiptabanka er ávísun á fákeppnisaðstöðu með mikilli gróðavon. Við höfum enn sömu myntina og þar með  sama fákeppnismarkaðinn, saman eru enn fjárfestingar og viðskiptabankar og ekkert tryggir dreift eignarhald eða kemur í veg fyrir að ráðandi eigendur misnoti banka sem fyrr. Við þurfum þessvegna róttækar breytingar á bankakerfinu og tryggja að ekki sé unnt að einkavinavæða þá  áður en hreyft er við eignarhaldi ef við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember sl.

5% lækkun skulda og 5% hækkun matar

Blaðagreinar

Nú er hafinn meistaramánuðurinn þar sem skila á skuldsettum heimilum heimsmeti í skuldaleiðréttingu. Heimsmetið er að vísu orðið meira að mús en meistara því 20% leiðréttingin er orðin 5%, 300 milljarðarnir að 72 og forsendubresturinn orðinn 250 þúsund á heimili á ári í fjögur ár, en ekki milljónirnar sem lofað var.

En auðvitað munar um 72 milljarða. Það verður þó að hafa í huga að skv. frétt Hagstofunnar jókst eigið fé heimilanna frá 2010-2013 um 638 milljarða og þótti ekki nóg. Þá verður að hafa í huga að á móti þeim 20 milljörðum sem veita á í leiðréttinguna á ári er búið að minnka vaxtabætur á móti frá 2011 um meira en helming þeirrar fjárhæðar eða 13 milljarða á ári.

Hér við bætist að ríkisstjórnin ætlar að hækka virðisaukaskatt á mat um 5 prósentustig við sama tækifæri. Matur er svipaður útgjaldaliður og húsnæði hjá flestu fólki eða um tæpur fimmtungur. Þeir vona að vísu að afnám sykurskatts dragi úr verðhækkunum svo þær verði „aðeins“ tæp 3 prósentustig en því miður  höfum við reynslu af því að lækkanir skila sér illa á móti hækkunum.

Heimsmeistaramánuður í sviknum loforðum

Áætlanir um persónulegan meistaramánuð í október fela í sér ýmis markmið til að bæta árangurinn. Margir einsetja sér að temja sér heilsusamlegt líferni og jákvæða hugsun. Vonandi gengur fólki betur að efna heit sín í mánuðinum en ríkisstjórninni. Enda verður það að teljast heimsmeistaramánuður í sviknum loforðum ef heimilin eiga að greiða sjálf fyrir útvatnaða skuldaleiðréttingu með skerðingu vaxtabóta og hækkunum á mat.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. október sl.