Stórkostlegur árangur

Blaðagreinar

Þegar við fyrir átta árum gengum í þingsal að hlusta á stefnuræðu Geirs Haarde var dökkt og dimmt úti. Þegar við gengum svo út aftur í skugga hrunsins hafði snjór lagst eins og teppi yfir allt og kominn hvítur kaldur vetur.

Olíuskipið í Stavanger fékkst ekki afgreitt, lyfjaskammtar voru afhentir til skemmri tíma í senn, Íslendingar erlendis áttu í erfiðleikum með framfærslueyri, Seðlabankinn tæknilega gjaldþrota, bankakerfið hrunið og enginn vildi lána Íslandi. Í kjölfarið annað hvert fyrirtæki landsins gjaldþrota og tugþúsundir heimila í uppnámi. Atvinnuleysi. Hættan stærst sú að ekkert byðist annað en okurvextir sem jafnharðan ætu þau verðmæti sem við sköpuðum. Fátæktargildra.

Þúsundir þrekvirkja

Aðeins átta árum síðar hefur vinnuafl skort lengi, Ísland er að verða nettó eignaland sem á meira í útlöndum en það skuldar, staða heimila og fyrirtækja gjörbreytt og vöxtur verið viðvarandi um árabil. Svolítið skemmtilegt að hugsa um að við sem oft belgjum okkur yfir litlu höfum enn ekki metið að verðleikum þann gríðarlega árangur sem við höfum náð.

Um allt land unnu fólk og fyrirtæki þúsundir þrekvirkja. Greiðslumiðlun varin, viðskiptasamböndum haldið opnum, fyrirgreiðslu aflað, velferðarþjónustu haldið uppi gegnum erfiðan niðurskurð, fjárhagur fjölda fyrirtækja og heimila endurreistur o.s.frv. Á spítölum, leikskólum, fyrirtækjum, heimilum voru tugþúsundir að vinna hvert þrekvirkið af öðru sem saman skópu árangurinn. Og þó við hefðum öll viljað gera betur og hraðar er þrekvirkið samt.

Í minn hlut kom að flytja frumvarp til síðari neyðarlaganna, lög sem læstu erlenda kröfuhafa inni. Það tókst á einu kvöldi með samstilltu átaki fjölda fólks. Það byggði á vinnu enn fleiri við undirbúning, en skilaði fyrst árangri eftir þrotlausa vinnu stórra hópa við framkvæmd laganna. Þar er kominn tími til að segja sem er að rétt eins og fólk í fjármálakerfinu gerði mörg mistök fyrir hrun gerði það margt mjög vel  eftir það.

Nýtt upphaf

Hægri öflunum tókst ekki að einkavæða bankana á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka, þrátt fyrir stóran þingmeirihluta. Heldur ekki spilla aðildarviðræðum, eyðileggja rammaáætlun um náttúruvernd né afhenda kvótann um alla framtíð í samningum við sægreifana. Þess vegna höfum við tækifæri í kosningunum til að leggja stóru línurnar um framtíðina. Öllu skiptir að efnahagslegur árangur okkar verði ekki aftur eyðilagður með nýfrjálshyggju og skammsýni ört vaxandi misskiptingar eins og 2007. Efnahagslegan árangur okkar treystum við best með varanlegum, róttækum kerfisbreytingum um aukið lýðræði, heilbrigðara bankakerfi, aukinn jöfnuð og opinbert velferðarkerfi. Aldrei aftur 2007.

 

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 9. september 2016.