Stefnuræða forsætisráðherra

Uncategorized

Forsætisráðherra flutti í gær stefnuræðu sína við upphaf 143. löggjafarþings. Ég tók þátt í umræðunum og læt ræðu mína fylgja hér:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. „Til hamingju Ísland“, gæti stefnuræða hæstv. forsætisráðherra heitið þetta árið eins og framlag annars fulltrúa sem við kusum hér um árið á öðru sviði þjóðlífsins. Um ræðuna má segja að það er ekkert nema gott og fallegt að hafa trú á landinu sínu en við Íslendingar þurfum að gæta þess að hrópa ekki Ísland best í heimi, því að við höfum svo nýlega lært að ofmetnaður er falli næst.

Þegar hæstv. forsætisráðherra segir það beinlínis ákjósanlegt að búa langt frá öðrum löndum með skýr landamæri, ein þjóð með sambærileg gildi, þá minnir alþjóðasinnaður jafnaðarmaður á að enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér, að sérhver maður er brot af meginlandinu og hluti veraldarinnar. Einangrunarstefnan mun aldrei skila okkur Íslendingum öðru en höftum, fábreytni og fákeppni. En um það erum við forsætisráðherra sannarlega sammála að gríðarlegur árangur hefur náðst á síðustu árum þó að ég ætti ekki von á því að þurfa að segja um aukinn kaupmátt, atvinnusókn og hagvöxt: Hægan, hægan, hæstv. forsætisráðherra, við skiluðum ekki alveg svona góðu búi.

Við höfum ekki náð svona langt. Það er enn þá mikið verk að vinna. Við þurfum innspýtingar við. Við megum ekki við því að afþakka erlenda fjárfestingu. Við megum ekki við því að skapa óvissu um stóra þætti í efnahag okkar, fá lækkun á lánshæfismati okkar sem dregur úr líkum á nýjum fjárfestingum í landinu því að við þurfum innspýtingar við.

Virðulegur forseti. Sannarlega átti ég aldrei von á því að horfa á formann Framsóknarflokksins skera niður hægri vinstri hvert framkvæmda- og atvinnuskapandi verkefnið af öðru sem fráfarandi ríkisstjórn kom á. Eins og honum þyki að hún hafi verið allt of framkvæmdasinnuð og atvinnuskapandi. Nei, en það er tilefni til að vera bjartsýn. Eftir fjögur ár í þrotlausum skattahækkunum og niðurskurði er núllinu loksins náð. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur fólkið í landinu skapað með fórnum sínum og nú er í fyrsta skipti kosta völ. Við gátum valið að halda veiðigjaldinu áfram og þá hefði engan niðurskurð þurft í velferðarþjónustu. Það sárgrætilega er að þegar við höfum náð þessum mikilvæga áfanga í ríkisfjármálunum er valið vitlaust.

Það er ekki bara hörð hægri pólitík. Það er líka vond efnahagspólitík. Einhvern tíma sagði formaður Framsóknarflokksins að maður sparaði sig ekki út úr kreppu, en Framsóknarflokkurinn verður að ráða sínum næturstað.

Hvað sem kann að líða deilum okkar í þinginu hvet ég þó til þess að við á Alþingi tökum saman höndum, þvert á flokka, og leiðréttum þau augljósu mistök sem ríkisstjórnin hefur gert í málefnum Landspítalans. Við skulum bara kalla það misskilning, við skulum ekki hafa uppi neinn umkenningaleik. Nú þegar svigrúm hefur loksins skapast í ríkisfjármálum skulum við saman setjast niður og leita tekna til að efla spítalann án þess að það leiði til halla á fjárlögum. Það er til þess ætlast, nú þegar svigrúm hefur skapast í ríkisfjármálum, að við lyftum saman Landspítalanum því að hann er dauðans alvara.

Ég bið líka um stuðning við þingmál sem hv. þm. Kristján Möller mun fara fyrir af okkar hálfu í Samfylkingunni um byggingu nýs Landspítala.

Virðulegur forseti. Það er sannast sagna algjörlega ófært að forsætisráðherra standi í veginum fyrir því að ráðist sé í þær skynsamlegu framkvæmdir sem geta aukið atvinnustigið, sem eru mikilvægt innlegg í að auka framkvæmdir, sem bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og aðstöðu sjúklinga og auka hagkvæmni í rekstri spítalans og framleiðni í landinu.

Ég bið um að hér fái skynsemin að ráða, að í þessum sal, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekkert samráð haft, átti stjórnarmeirihlutinn sig á því að það er samstarf og samvinna okkar hér sem er líklegust til að skila okkur árangri, auka eindrægni í samfélaginu og traust á Alþingi.

Leigjendur og kaupendur fái sömu bætur

Uncategorized

Fréttir segja okkur að nú sé enn verra að leigja sér íbúð en áður. Hefur það samt oftast verið dýrt, erfitt og óöruggt. Þetta ástand varð til þess að við í Samfylkingunni lögðum fram á Alþingi í síðustu viku  tillögur um aðgerðir fyrir leigjendur. Það vekur bjartsýni að margir flokkar vilja gera eitthvað í málum leigjenda.

Sanngirnismál

Eitt það skrýtnasta í okkar íbúðamálum er að oft fá þeir meiri bætur frá kerfinu sem kaupa sér íbúð, en hinir sem leigja fá minna. Samt eru þeir sem kaupa oft með meiri peninga milli handa en hinir sem leigja. Réttlátara væri auðvitað að fólk fái jafn miklar bætur hvort sem það kaupir eða leigir og bætur miðist við laun og eignir hvers og eins. Við viljum að fólk fái sömu bætur, hvort sem það velur að kaupa eða leigja. Við lögðum það til á síðasta kjörtímabili og nú á þessu.

Það væri líka skrýtið í íbúðamálunum ef þeim sem borga af íbúðalánum verður hjálpað vegna verðbólgunnar í hruninu, en ekki þeim sem borga leigu. Mikið af hækkun húsaleigu er vegna verðbólgu í hruninu. Ef það á að lækka afborganir þeirra sem urðu fyrir verðbólguskotinu væri jafn rétt og sanngjarnt að leiðrétta líka húsaleigu þeirra sem urðu fyrir sama verðbólguskoti.

Öryggi fjölskyldunnar

Óöryggi þeirra sem leigja hefur oft á tíðum verið jafn mikill galli og há leiga.  Allt of algengt er að fólk hafi þurft að flytja aftur og aftur úr einni leiguíbúð í aðra. Ekki hefur það síst verið vont fyrir börnin sem hafa jafnvel þurft að skipta oft um skóla. Sterk leigufélög eins og hjá borginni, Öryrkjabandalaginu og nú síðast í gegnum Íbúðalánasjóð auka framboð af öruggum leiguíbúðum til lengri tíma. Þess vegna er rétt að fjölga slíkum félögum og efla þau sem fyrir eru.

Framboð og fjölbreytni

Með því að fjölga leiguíbúðum gerum við bæði að lækka leigu og fjölga öruggum langtíma leiguíbúðum. Við leggjum til átak þar sem bæði sveitarfélög og ríki veita styrki til þeirra sem vilja koma upp langtíma leiguíbúðum. Þá er gert ráð fyrir að ráðstafa lóðum í eigu ríkisins til leiguíbúða. Með því síðan að leigjendur fái sömu bætur og kaupendur íbúða verður staða leigjenda mun betri og jafnari en hún er nú.

Fleiri en áður vilja nú leigja íbúð en kaupa og eðlilegt að kerfið komi til móts við fólk með svipuðum hætti hvort sem það velur. Hér á landi hefur því miður verið minna af leiguíbúðum en í nágrannalöndunum og sérstaklega íbúðum sem ætlaðar eru til öruggrar langtímaleigu. Hrunið sýndi mörgum að það getur komið sér illa að eiga íbúð ef maður skuldar mikið í henni og sveiflur eru miklar eins og á Íslandi. Langtímaleiga getur verið fyrir marga jafn góður eða betri valkostur og íbúðakaup.

Þegar aukin réttindi leigjenda hafa verið tryggð eigum við í framhaldinu að huga að fleiri möguleikum eins og búseturéttaríbúðum, kaupleigu og öðrum leiðum sem aukið geta fjölbreytni og valkosti okkar í íbúðamálum.

 

Pistillinn birtist í DV 16. september sl.

Ég veit bara eitt…

Uncategorized

Bestu samfélög í heimi, velferðarsamfélög Norðurlandanna, voru mótuð
af sterkri hreyfingu jafnaðarmanna. Samstaða jafnaðarmanna er
lykillinn að slíku samfélagi. Við megum því ekki láta tvístra okkur
þegar öfl ójafnaðar sækja í sig veðrið. Fróðlegt er að fylgjast með
loforðum frambjóðenda um allt fyrir alla. Þau sýna okkur að endurreisnin
er langt komin og tækifærin framundan.

Það kom í minn hlut á Alþingi að fara fyrir lagasetningu á erlenda
kröfuhafa. Þær lagabreytingar hafa nú skapað Íslandi gríðarlega
sterka samningsstöðu sem meta má til hundruða milljarða króna.
Þessu þarf að fylgja fast eftir.

Um leið og ég þakka þann trúnað sem mér hefur verið sýndur vil ég
vekja athygli þína á því að samkvæmt könnun Capacent frá 19. apríl
vantar herslumun á að ég nái kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður
í Reykjavík suður.

Því bið ég um stuðning þinn við okkur í Samfylkingunni í kosningunum
á laugardag. Þitt atkvæði getur ráðið úrslitum – xS.

Gleðilegt sumar,

Helgi Hjörvar

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna loksins lögfestur

Uncategorized

Stórt skref var stigið á Alþingi í gær í að tryggja með fullnægjandi hætti réttindi barna á Íslandi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var loksins lögfestur þegar frumvarp mitt og fleiri þingmanna þess efnis var samþykkt með 46 samhljóða atkvæðum. Lögfesting sáttmálans hefur verið lengi til umræðu og margir aðilar komið að málinu á síðustu árum. Meðflutningsmönnum frumvarpsins nú og fyrri flutningsmönnum sams konar mála ber að þakka fyrir þeirra framlag. Sú samstaða sem náðist um málið er afar ánægjuleg og vonandi fyrirheit um það sem koma skal við löggildingu annarra mikilvægra mannréttindasáttmála, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Flokksvalið stendur yfir – takið þátt

blog

Netkosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík stendur nú yfir og lýkur á morgun, laugardag, klukkan 18.

Á morgun geta þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna, hafa ekki aðgang að tölvu og heimabanka eða vilja ekki kjósa rafrænt farið í Laugardalshöllina og kosið þar. Opið verður frá 10-18.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Fyrsta skref er að fara inn á samfylking.is

Þar er smellt á hnappinn/hlekkinn Flokksval 2012

Þá flyst kjósandinn á síðu þar sem hann á að slá inn kennitölu sína.

Að því loknu er lykilorð sent sem rafrænt skjal í heimabanka kjósandans. Næsta skref er því að skrá sig inn á heimabankann sinn og sækja lykilorðið. Nokkur tími getur liðið þar til lykilorðið birtist í heimabankanum. Það finnur maður í yfirliti yfir rafræn skjöl eða netyfirliti.  Á Flokksvalssíðunni á vef Samfylkingarinnar geta kjósendur nálgast leiðbeiningar um hvar lykilorðið er að finna en það er nokkuð mismunandi eftir bankastofnunum hvernig uppsetningunni í heimabönkunum er háttað.

Þegar lykilorðið hefur birst er heimabankanum er það afritað eða slegið inn í gluggann á Flokksvalssíðunni. Þá er hægt að opna kjörseðil.

Þar eru  nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem dregið hefur verið um. Þarna á kjósandi að raða frambjóðendum í sæti 1-8. Ég bið um stuðning í 2. sætið.

 

 

Íslensk tungutækni

blog

Á degi íslenskrar tungu er fagnaðarefni að íslensk málnefnd hefur veitt viðurkenningar fyrir tungutækniverkefni. Þær hlutu Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, og Jón Guðnason og Trausti Kristjánsson, kennarar og vísindamenn við Háskólann í Reykjavík.

Allir hafa þeir unnið mikilvægt starf í tungutækni, sem breytir stöðu íslenskrar tungutækni og íslenskrar tungu. Íslenskan hefur fram að þessu verið eftirbátur annarra tungumála á þessu sviði.

Verðlaunahafarnir hafa einnig unnið starf sem kemur blindum og sjónskertum Íslendingum að miklu gagni og veitir okkur svipaða möguleika til að nota nýjustu tölvutækni og aðrar þjóðir búa við.

Blindrafélagið kynnti fyrr í ár nýjan íslenskan talgervil. Það er hugbúnaður sem breytir texta í tal. Hann gjörbreytir möguleikum til að nota símtæki, tölvur og tölvustýrðan búnað eins og hraðbanka.

Talgervillinn byggist á stórum íslenskum málgagnasöfnum og vandaðri greiningu á framburði íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd veitir Kristni Halldóri viðurkenningu fyrir hans ötula starf að þessu verkefni.

Í Háskólanum í Reykjavík voru Jón og Trausti lykilmenn í því að nýr talgreinir fyrir íslensku, sem hægt er að nota í farsímum með Android-stýrikerfinu, varð að veruleika í lok sumars.

Talgreinir er hugbúnaður sem skilur talað mál og getur framkvæmt skipanir sem eru settar fram í töluðu máli. Hann gerir m.a. mögulegt að tala við símann sem þá breytir töluðu máli í texta fyrir leit eða sms-skilaboð. Þetta er búnaður sem hefur lengi verið til fyrir ensku og ýmis önnur tungumál. Nú er hann einnig til á íslensku.

Talgervillinn og talgreinirinn eru auðvitað mjög mikilvæg tækni fyrir okkur blinda og sjónskerta. Til þessa höfum við notað frumstæðar, íslenskar tölvuraddir sem ekki ganga með nýjustu farsímum og fleiri tækjum sem nú eru hluti daglegs lífs. En fyrst og fremst er þetta starf Blindrafélagsins og Háskólans í Reykjavík mikilvægt fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu.

Til þess að rækta íslenskuna sem okkar samskiptamál í framtíðinni verðum við að fylgja þróun tækninnar á þessu sviði þannig að bíllinn, síminn, tölvan og tækin öll tali og skilji íslensku eins og önnur tungumál.

 

(Birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember)

Flokksvalið hefst á miðnætti, utankjörstaðakosning í dag

blog

Rafræn kosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík hefst á miðnætti í kvöld og hún stendur yfir til klukkan 18. laugardaginn 17. nóvember. Ég óska eftir stuðningi í 2. sætið og þar með efsta sætið í öðru hvoru kjördæminu.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna og eins þeir sem ekki nota heimabanka eða hafa ekki aðgang að tölvu geta kosið í Laugardalshöll á laugardeginum. Þar verður opið frá klukkan 10-18.

Síðasti dagur utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar er í dag; þá er hægt að kjósa á skrifstofum Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg 1 frá klukkan 16-19.

Hér er hægt að kynna sér frambjóðendur í flokksvalinu á heimasíðu Samfylkingarinnar og lesa kynningarblað sem dreift var með Fréttablaðinu á dögunum.

60 ára afmælisþing Norðurlandaráðs

blog

Í dag hefst Norðurlandaráðsþing í Helsinki, helsti viðburður norrænnar samvinnu ár hvert. Norðurlandaráð á 60 ára afmæli í ár og því ber að fagna þar sem ráðið er í lykilhlutverki við að bæta hag almennings á Norðurlöndum með frumkvæði um norrænt samstarf. Verkefnin eru á ýmsum sviðum, á sviði efnahagsmála, menningar- og menntamála, borgara- og neytendamála, umhverfismála, og í síauknum mæli á sviði alþjóðamála.

Norðurlandaráðsþingið er einstakt að því leyti að þar eiga sér stað umræður milli ráðherra allra Norðurlandanna við þingmenn frá öllum löndunum. Í ár verða sérstakar umræður ríkisstjórnaleiðtoga landanna og stjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja um efnahagslegar og aðrar áskoranir norrænna velferðarkerfa. Þá verða umræður með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna um alþjóðamál og öryggis- og varnarmál, og ráðherrar norrænna samstarfsmála svara óundirbúnum munnlegum fyrirspurnum þingmanna.

Landamærahindranir, þ.e. reglur og venjur innan stjórnsýslunnar sem hindra för og starf einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda skv. norrænum samningum, hafa verið í brennidepli í starfi Norðurlandaráðs á árinu og verða það einnig á Norðurlandaráðsþinginu. Í apríl fóru fram samtímis í norrænu þjóðþingunum umræður um landamærahindranir þar sem rauði þráðurinn í umræðunum var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun hindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Fyrir Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki liggur tillaga um að styrkja lagalega stöðu norræns almennings samkvæmt norrænum samningum með norrænum umboðsmanni. Ætlast er til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á landamærahindranir milli Norðurlanda geti leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.

Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið verða einnig afhent verðlaun Norðurlandaráðs en þess má geta að tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 hlýtur íslenska tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir fyrir verk sitt Dreymi.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu þann 30. október 2012.)

Til stjórnenda fjármálafyrirtækja

blog

Eftirfarandi bréf sendi ég í dag til stjórnenda fjármálafyrirtækja:

Í tilefni af dómi Hæstaréttar Íslands fimmtudaginn 18. október sl. í máli Arion banka gegn Borgarbyggð og að höfðu samráði við sérfræðinga tel ég rétt að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum. Það geri ég vegna þess að um afstöðu mína hefur verið spurt og í ljósi þeirrar eftirlitsskyldu sem þingmönnum ber
að hafa í huga í sínum störfum:

 Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, sbr. þorra lána í F flokki gengislána skv. skilgreiningum FME, sem voru í íslenskum krónum að öllu leyti.

 Einboðið er að endurreikna skuli öll lán sem voru með ólögmætri gengistryggingu, greitt var af og festa var komin á í framkvæmd. Hvort „festa í framkvæmd“ er þrjár greiddar afborganir eða fleiri verða fjármálafyrirtæki sjálf að leggja mat á, en ljóst má vera að ekki þurfi 17 greiddar afborganir til að festa komist á framkvæmd. Við þetta mat hljóta fjármálafyrirtæki að hafa í huga hve óheppilegt það væri ef réttur viðskiptavina þeirra yrði í slíku mati enn vanmetinn.

 Þá er óhjákvæmilegt að staðið verði við yfirlýsingar um að viðskiptavinir glötuðu ekki réttindum með samningum þannig að þeir njóti sambærilegra endurútreikninga og ef greitt hefði verið.

 Ég hvet til þess að fyrri eigendum eigna sem fjármálafyrirtæki eða félög þeim tengd hafa enn umráð yfir og hafa verið teknar af eigendum sínum á uppboðum eða í skiptameðferð sem orsakast hefur að hluta eða í heild af ólögmætri gengistryggingu verði boðið að slíkir gjörningar gangi til baka að uppfylltum skilyrðum.

 Ekki eru gerðar athugasemdir við að reyna þurfi á fyrir dómstólum stöðu fyrirtækja með sérþekkingu á fjármálasviði, eða einstaka skammtíma fyrirgreiðslu sem varðað getur mikla hagsmuni. Þá er og ljóst að enn á eftir að fá dómsniðurstöðu um þá sem hvorki greiddu né sömdu. Þá eru ekki öll gengislán með ólögmætri gengistryggingu og enn á eftir að reyna á ýmis ákvæði neytendaréttar. En þetta á ekki að varna endurútreikningum hjá þorra almennings og venjulegum fyrirtækjum. Mikil undirbúningsvinna var unnin við síðustu endurútreikninga með flokkun lána og tölvuskráningu. Er eindregið hvatt til þess að endurútreikningum verði lokið um áramót svo gera megi upp skattárið og ársreikninga fyrirtækja á réttum grunni, sé þess nokkur kostur.

Ólögmæt gengistrygging lána er ein samfelld hörmungasaga sem skaðað hefur fólk, fyrirtæki og fjármálakerfið varanlega. Ítrekað hefur verið gengið of langt gagnvart fólki og fyrirtækjum í kröfugerð og aðförum. Í því ljósi verður nú að krefjast þess af fjármálafyrirtækjum að þau fari fram af hófsemi gagnvart viðskiptavinum sínum, hraði endurútreikningum og gæti ítrustu varúðar við innheimtu lána sem réttaróvissa ríkir um og leggi sig fram við að flýta úrlausn þeirra álitaefna sem út af standa.

Lögfesting barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Uncategorized

Ég mælti í gær fyrir frumvarpi þess efnis að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur á Íslandi. Alþingi samþykkti árið 2009 þingsályktunartillögu þess efnis en lögfestingin hefur enn ekki komið til framkvæmdar en sáttmálinn var staðfestur af Íslands hálfu 1992. Þó svo að börn á Íslandi búi við betri mannréttindi en gerist víðast hvar í heiminum teljum við flutningsmenn frumvarpsins, sem eru auk mín þingmennirnir Ólöf Nordal, Birkir Jón Jónsson, Margrét Tryggvadóttir og Álfheiður Ingadóttir, að mikilvægt sé að tryggja þann lagalega grundvöll sem sem mannréttindi þeirra hvíla á. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grundvallargagn í því efni.