Stjórnlagaráð og virðing fyrir störfum Hæstaréttar

blog

Vegna umræðna um afdrif stjórnlagaþings, birti ég hér ræðu mína úr fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Eins og fram hefur komið eru skiptar skoðanir um ágæti þessarar tillögu, bæði innan þings og utan. Að mínu mati er það lykilatriði að Alþingi setji ekki það vonda fordæmi að löggilda óbeinlínis það sem dómarar Hæstaréttar hafa ógilt. Þess vegna styð ég ekki framkomna tillögu.

Virðulegur forseti. Með tillögu um stjórnlagaráð freistar einfaldur meiri hluti Alþingis þess að löggilda óbeinlínis það sem dómarar Hæstaréttar hafa ógilt. Það er vont fordæmi vegna þess að við höfum sett dómara Hæstaréttar til að gæta að mannréttindum, lögum og reglu, og það væri ófært ef Alþingi legði það í vana sinn að löggilda jafnharðan það sem dómararnir ógilda. Þá væri með því horfið frá hinni glæsilegu hugmynd um kjörið stjórnlagaþing þjóðarinnar sem setji Alþingi og þjóðinni tillögu að nýrri stjórnarskrá til að skipa enn eina undirnefnd Alþingis, um stjórnarskrármálefni, mjög í skötulíki.

Þess vegna get ég ekki stutt þá tillögu sem hér er fram sett. Ég hef verið þeirrar skoðunar að einu réttu viðbrögðin við úrskurði hæstaréttardómaranna hefðu verið að endurtaka kosninguna og gera þetta, eins og upphaflega var ætlunin, að þjóðkjörnu stjórnlagaþingi með fullri reisn og fullu umboði til þeirra mikilvægu verka sem við höfum sett það til. Ég taldi raunar að um þá leið gæti orðið best samstaða hér í þinginu og hélt það eftir samræður mínar við marga þingmenn, en niðurstaðan úr þeim samráðshópi sem settur var til verksins er önnur. Þar höfðu menn vissulega úr vöndu að ráða og ég held því ekki fram að sú leið sem hér er lögð til sé óheimil. Auðvitað hefur Alþingi vald til að ákveða þetta. Það að þingið hafi vald til þess þýðir þó ekki að það sé rétt að gera það. Og ég hef rakið hvers vegna ég telji það vont fordæmi.

Þetta er auðvitað sárgrætilegt vegna þess að sá leiðangur sem hér var hafinn var gríðarlega merkilegur. Við getum enn þá bundið vonir við það að hann muni skila okkur nýrri og betri stjórnarskrá, nýjum og betri grundvallarreglum í samfélaginu. Það fór fram glæsileg kosning. Ég hafna því að þátttakan í þeirri kosningu hafi ekki verið þannig að sómi hafi verið að. Af aukakosningum að vera var gríðarlega mikil þátttaka og tugir þúsunda tóku þátt í því starfi að velja góðan hóp manna til að fara í þetta verk. Það var þess vegna afar hryggilegt að úrskurður hæstaréttardómaranna skyldi falla.

Ég er í hópi þeirra sem eru ákaflega ósammála niðurstöðu þeirra. Ég fæ ekki skilið að þau rök sem þar voru færð fram dugi til þess að grípa til jafnalvarlegrar aðgerðar og að ógilda kosningu. En þó að ég sé fyllilega ósammála niðurstöðunni getur maður ekki hagað sér þannig að það fari eftir því hvort manni líki niðurstaða dómara Hæstaréttar hvernig maður bregst við.

Hæstiréttur hefur verið gagnrýndur að gamalkunnum íslenskum sið með því sem kallað eru ad hominem-rök, þ.e. það hefur verið farið í manninn en ekki í boltann. Dómurum Hæstaréttar hafa verið gerðir upp ýmsir hlutir og þeir ásakaðir um ýmiss konar pólitísk viðhorf og afturhaldssemi. Ég held að öll sú umræða sé langt því frá að vera sæmandi. Hæstiréttur er æðsti dómstóll okkar og við treystum honum svo vel að við fólum honum m.a. að skipa forustuna fyrir rannsóknarnefnd Alþingis til að vinna fyrir okkur og þjóðina alla greinargóða skýrslu um það hvað hafði verið gert rétt og hvað rangt í stjórnsýslu á Íslandi. Það var vegna þess að við treystum Hæstarétti betur en nokkrum öðrum til þeirra verka.

Hæstiréttur hefur raunar sýnt sig að því að vera róttækur í dómum sínum. Margsinnis höfum við fagnað því, þegar dómarar Hæstaréttar hafa kveðið upp dóma til þess að verja lífskjör öryrkja, til að hlutast til um atvinnufrelsi manna, verja rétt fólks til náms og úrskurðað ólögmæt gengistryggð lán. Þegar við leggjum upp í þann leiðangur að setja íslensku samfélagi grundvallarreglur verðum við að gæta að grundvallarreglum og grundvallarsjónarmiðum og því að við eigum að fylgja því sem við teljum vera rétt í viðbrögðum við dómum Hæstaréttar hverju sinni en ekki bara taka næstbesta kostinn af því að það voru kannski flestir til í að vera kannski sammála um það.

Við þurfum líka að vanda til verka eins og hér hefur komið fram við umræðuna og það skötulíki sem stjórnlagaþinginu er skapað með þessari umgjörð er ekki hægt að kalla að vanda til verka. Við ætlum að reyna að ná fram breytingum á grundvallarsamþykktum samfélagsins, stjórnarskránni sjálfri, og við verðum einfaldlega að vanda betur til þess og gera það betur. Við þurfum líka að gæta að því að enn eitt af því sem við þurfum að læra af óförum okkar, fyrir utan að gæta betur að grundvallarreglum og prinsippum en við höfum gert, fyrir utan það að vanda okkur betur en við höfum gert og sannarlega í þessu máli, þurfum við líka að endurskoða hugmyndir okkar um meirihlutaræði.

Ég held að við hljótum öll að spyrja okkur hvort það sé farsælt að einfaldur meiri hluti, 30 og eitthvað þingmenn, knýi fram niðurstöðu um umgjörðina um það starf sem á að endurskoða stjórnarskrá Íslands. Væntum við þess að það séu miklar líkur á því að út úr því komi niðurstaða sem góð samstaða verði um? Munu allir þeir 30 og eitthvað þingmenn styðja þær tillögur sem úr slíkri nefnd koma? Er það reynsla okkar af því þegar Alþingi hefur skipað nefndir?

Ég held að það sé full ástæða til að hvetja allsherjarnefnd til að fara vandlega yfir þessar tillögur og ræða í þinginu hvort ekki sé hægt að finna betri og réttari leið og ná meiri samstöðu um það með hvaða hætti eigi að vinna að þessu grundvallarmálefni. Ég hvet líka allsherjarnefnd og flutningsmenn tillögunnar, ef það er eindreginn ásetningur meiri hlutans í þinginu að fara hana, til að huga þá að því að breyta a.m.k. því sem í tillögunni segir um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef menn ætla að setja það góða fólk sem hér um ræðir til þeirra verka að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá með þessu óheppilega og takmarkaða umboði finnst mér lágmark að því sé sá sómi sýndur að það fái umboð til að leggja tillögu sína fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en málið kemur aftur inn til þingsins.

Ég held að þetta sé ekki óskaniðurstaða fyrir neinn. En næstskásti kosturinn er ekki viðunandi umgjörð um það starf sem hér á að fara fram. Við á Alþingi eigum að gera og getum gert betur. Stjórnlagaþingið á það skilið og stjórnarskráin á það skilið.

14 – 1

blog

Auðlind okkar allra, fiskurinn í sjónum, skilaði sjávarútveginum 45 milljarða gróða árið eftir hrun, 2009. Fyrir þann gríðarlega hagnað greiðir hann 3 milljarða til almennings í veiðigjald, eða einn milljarð til eigandans fyrir hverja fjórtán sem hann tekur í hagnað. Það er verri meðferð á almenningi en íslenska landsliðið mátti þola gegn Dönum í versta ósigri íslenskrar knattspyrnusögu. Til glöggvunar er hreinn hagnaður sjávarútvegs nær hálf milljón á hvert heimili.

Að breyta þessum hlutaskiptum almennings og sjávarútvegsins kalla starfsmenn sægreifanna gjaldþrotaleið. Þó sér hvert barn að vel má una útveginum umtalsverðs hagnaðar, þó réttur verði hlutur almennings. Hitt er líklegra að verða gjaldþrotaleið ef leggja á meiri álögur á venjulegt fólk og fyrirtæki, í stað þess að sækja þann arð sem þjóðin á tilkall til af auðlind sinni.

Skýrsla Hagstofunnar um hag fiskveiða og fiskvinnslu 2009

Grænn hagvöxtur – leiðin út úr kreppunni

blog

Á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík á morgun fjalla norrænu forsætisráðherrarnir um spurninguna „Grænn hagvöxtur – leiðin út úr kreppunni?“ Málefnið snertir okkur öll, þar sem grænn hagvöxtur veitir okkur tækifæri til að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og skapa ný störf í grænu hagkerfi. Norðurlöndin eru framarlega í notkun endurnýjanlegrar orku og þróun umhverfistækni. Hvernig tryggjum við að þau verði það einnig í framtíðinni?

Norræn tækifæri

Áhugaverður markaður fyrir græna tækni er nú að verða til. Reiknað hefur verið út að alþjóðamarkaður fyrir græna tækni sé um 6.000 milljarðar sænskra króna og árlegur vöxtur hans 6-14%. Kínverjar verða sennilega stærstir og fremstir í framleiðslu og notkun umhverfistækni, þó ekki endilega á sviði umhverfiseinkaleyfa og nýsköpunar. Norðurlöndin, hins vegar, eru í sterkri stöðu á sviði umhverfistækni og aðstæður þar eru hagstæðar fyrir grænan hagvöxt.

Danir eru fremstir á sviði vindorku, Íslendingar á sviði jarðvarma, Svíar og Finnar á sviði lífefnaorku og Noregur og Svíþjóð á sviði fallorku. Þessi norræna þekking er ekki í innbyrðis samkeppni heldur hafa norrænu ríkin mikinn hag af því að vinna saman óháð landamærum. Í þessu felast norrænu tækifærin.

Vegvísir

Til þess að grípa viðskiptatækifærin verða norrænu ríkin að skapa réttar aðstæður fyrir grænan hagvöxt og standa vörð um norræn styrkleikasvið. Við verðum að bæta kynningar og markaðssetningu rannsóknaniðurstöðva okkar á alþjóðamarkaði. Vinnan við þróun hnattvæðingarverkefnisins á sviði rannsókna verður því enn mikilvægari. Norræna öndvegisrannsóknaverkefnið (TFI) er í því samhengi fyrirmynd framtíðarverkefna á sviði nýsköpunar og rannsókna.

Þróa verður efnahagslega hvata á sviði umhverfistækni til þess að skapa öflugri frumkvöðlamenningu með lítil fyrirtæki sem drifkraft. Með vel skilgreindum rammaskilyrðum og samstarfi þvert á mörk stofnana og landamæra gæti verið komið svar umhverfistækninnar við Maersk, Ikea eða Nokia á Norðurlöndum.

Tilurð græna hagkerfisins krefst þess, eins og þegar aðrar breytingar eiga sér stað, að við bæði hugsum og breytum á nýjan hátt. Norðurlandaráð leggur því til eftirfarandi vegvísa fyrir grænan hagvöxt:

  • Gerum það arðbært fyrir atvinnulífið að veðja á umhverfistækni með styrkjum í byrjun þar til markaðurinn tekur við.
  • Fjölgum efnahagslegum hvötum til breytinga yfir í umhverfistækni með því að verðleggja kolefnislosun og leggja til skattlagningu koltvísýrings í viðræðum við ESB og SÞ.
  • Sköpum markaðslegan slagkraft og tengslanet fyrir norrænar lausnir með myndun norræns samstarfsnets sem samþættir styrk norrænu ríkjanna á sviði umhverfistækni.
  • Sköpum aðstæður fyrir nýjar fjárfestingar á norrænum markaði með skýrum pólitískum rammaskilyrðum sem vinna gegn verndarstefnu og efla frjálsa verslun.

Álagið á náttúruauðlindir eykst og einnig krafa stjórnmálamanna um lausnir. Norðurlandaráð spyr því ríkisstjórnirnar hvernig þær ætli að vinna að þróun norrænna tækifæra og setja þessa vegvísa í norræna áætlun um grænan hagvöxt.

Sameiginleg áætlun um grænan hagvöxt

Hvert fyrir sig eru norrænu ríkin lítil, en í saman eru Norðurlöndin 10. stærsta hagkerfi heims. Tækifæri okkar til að hafa áhrif á þróunina í þjóðlöndunum, svæðisbundið í gegnum ESB og á alþjóðavettvangi í gegnum SÞ, eykst til muna ef Norðurlöndin vinna í sameiningu áætlun um grænan hagvöxt.

Í dönsku skýrslunni um grænan hagvöxt er því slegið föstu að pólitískrar forystu sé þörf til að breyta yfir í grænt hagkerfi. Sænska umhverfistækniráðið nefnir pólitíska stjórnun og samstarf sem stefnumarkandi svið fyrir grænan hagvöxt. Fundurinn með forsætisráðherrunum í Reykjavík verður því gott tækifæri til að skilgreina hvernig Norðurlöndin geta haldið forystuhlutverki sínu á sviði grænnar tækni.

Því grænn hagvöxtur er leiðin til að vinna á efnahagskreppunni og loftslagsvandanum. Og á þriðjudag verða ráðherrarnir einnig að velja hvort vegagerðin verður innan eða utan landamæra Norðurlanda.

Geinin birtist í Fréttablaðinu 1. nóvember sl. í aðdraganda þings Norðurlandaráðs í Reykjavík. Meðhöfundar eru fjórir þingmenn Norðurlandaráðs; Dagfinn Høybråten frá Noregi, Paavo Arhinmäki frá Finnlandi, Karin Åström frá Svíþjóð og Henrik Dam Kristensen frá Danmörku.

Sanngjarnar skuldaleiðréttingar

blog

Alþingi afgreiðir nú endurbætt og vönduð úrræði fyrir verst settu skuldarana. Einar sér eru slíkar lausnir þó líkt og að bera sólarljós inn í gluggalaust hús, því hætt er við að án víðtækra almennra skuldaleiðréttinga bætist við ný vandamál jafn harðan og leysist úr hinum eldri. Þess vegna er fagnaðarefni að fyrir Alþingi liggur einnig stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra um almennar aðgerðir vegna bílalána. Enn hefur þó ekki náðst samstaða um almennar aðgerðir vegna húsnæðislána almennings sem hafa ýmist orðið fyrir gengishruni eða verðbólgusprengju.

Þverpólitísk samstaða tókst í efnahags- og skattanefnd Alþingis fyrr á árinu um að kanna svigrúm bankanna til afskrifta. Af ársreikningi Landsbankans má ráða að bankinn sjálfur fékk hjá sínum kröfuhöfum 33% niðurfærslu á lánum einstaklinga. Einnig hefur fréttaflutningur verið af lánaflokki einnar fjármálastofnunar sem hafði verið færður niður um nær helming. Alls eru íbúðalán viðskiptabankanna yfir 500 milljarðar og afslátturinn sem þeim hefur verið veittur af kröfum tugmilljarðar. Bankarnir hafa gert almenn tilboð um skuldaleiðréttingar gengistengdra lána, en ekki verðtryggðra íslenskra húsnæðislána (utan Íslandsbanka – 10%) sem þó væri eðlilegt að gera tilkall til enda bera þeir og kröfuhafar þeirra verulega ábyrgð á forsendubresti sem viðskiptavinirnir líða nú fyrir og sanngjarnt að deila þeim kostnaði. Almennar leiðréttingar væru þó alltaf mun lægri en afsláttur til bankanna var því hann fer að verulegu leyti í tapaðar kröfur.

Skuldaleiðréttingar íslenskra húsnæðislána hafa hinsvegar alltaf strandað á því að lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður yrðu að taka þátt í þeim. Það gæti annarsvegar leitt til skerðingar lífeyris sem enginn vill og hinsvegar gæti ríkið ekki lagt Íbúðalánasjóði til það sem þarf.

Ný staða

Seðlabanki Íslands gerði nýverið hagstæðan samning við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á skuldabréfapakka Avens sem innihélt íslensk íbúðabréf og innistæður. Skuldabréfin voru svo seld lífeyrissjóðunum og er talið hafa styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðanna um 1-2%, eða á þriðja tug milljarða. Stærstu sjóðirnir eru með liðlega 150 milljarða í húsnæðislánum til einstaklinga en nærri lætur að ávinningurinn af Avens samningnum gæti staðið undir 10-15% lækkun húsnæðislána lífeyrissjóðanna án þess að skerða þyrfti lífeyrisréttindi. Ekki getur talist óeðlilegt að ávinningur sjóðanna af íbúðabréfaviðskiptum renni til skuldaleiðréttinga húsnæðislána. Ábati ríkissjóðs af samningnum var ekki langt frá því sem lífeyrissjóðirnir nutu. Þar sem fyrst og fremst er um hagnað af íbúðabréfaviðskiptum að ræða væri ekki óeðlilegt að láta Íbúðalánasjóð njóta góðs af með sömu rökum og að ofan. Ef frekari eiginfjárframlög þyrfti til sjóðsins eða bankanna, þá er rétt að hafa í huga að endurfjármögnun bankakerfisins varð hátt í 200 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá má skoða ýmsar aðrar leiðir til eflingar Íbúðalánasjóði, s.s. hærri vaxtamun, merkja honum tekjur af sérstökum bankasköttum, skattleggja séreignasparnað og leggja í sjóðinn, o.s.frv. Þegar saman er lagt afskriftasvigrúm bankanna, ávinningur lífeyrissjóðanna og ríkissjóðs af Avens samningnum, auk annarra leiða er ljóst að skapa má allt að 100 milljarða svigrúm til almennra aðgerða.

Á næstu dögum fellur Hæstaréttardómur um lögmæti gengistenginga og getur þá skapast enn ný staða í skuldaleiðréttingamálum ef dómurinn fellur skuldurum í vil. Þegar þeirri réttaróvissu hefur verið eytt hafa stjórnmálaöflin í landinu tækifæri til að taka forystu og ná saman um sanngjarnar almennar skuldaleiðréttingar. Þær munu ekki leysa hvers manns vanda, né munu afskrifast 20% af öllu hjá öllum. Lántakendur geta heldur ekki vænst þess að lánveitendur beri allan skaðann sem 29,4% verðbólga á hálfu þriðja ári er, en eðlilegt er að honum sé deilt og kannski almennar aðgerðir eigi einkum að miða að þeim sem keyptu húsnæði á síðustu árum fyrir hrun.

Sátt, traust og samheldni

Sumir hafa haft áhyggjur af því að almennar aðgerðir nýtist líka fólki sem ekki þarf á að halda. Þá er þrenns að gæta. Í fyrsta lagi hefur það fólk líka sætt óréttmætu vaxtaokri. Í öðru lagi, þó fólk eigi eignir umfram skuldir hefur auk tæplega 30% verðbólguskots, kaupmáttur rýrnað um 13% frá ársbyrjun 2008. Í þriðja lagi verður hægt að skattleggja þá sem við teljum ekki að eigi að njóta almennra aðgerða. Þeir sem hafa haft áhyggjur af skuldaradekri ættu að hafa í huga að án almennra aðgerða komum við einkum til móts við þá sem gengu lengst í skuldsetningu, en venjulegt vinnandi fólk sem hélt sig innan hámarkslána Íbúðalánanasjóðs fær engan stuðning þó lánin hafi hækkað um tæp 30% og kaupmáttur rýrnað um 13%. Það væru ekki góð skilaboð inn í framtíðina að skuldagleðin ein njóti skilnings.

Við munum ekki greiða úr fjármálum heimila hratt og vel nema saman fari greiðsluerfiðleikaúrræði og almennar aðgerðir sem skapa fólki almenn skilyrði. Stjórnvöld og fjármálakerfið þurfa líka að viðurkenna ábyrgð sína á vanda heimila. Skuldaleiðrétting er áþreifanleg leið til þess og mikilvægt skref til að byggja upp traust og ná sáttum í íslensku samfélagi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. júní

Frumvarp um upptöku eigna

blog

Ég mælti í dag fyrir frumvarpi um upptöku eigna án þess að sakfellingar sé krafist. Um er að ræða alþjóðlega viðurkennt úrræði sem er ætlað að auðvelda yfirvöldum að gera upptækar eignir sem eru til komnar vegna glæpsamlegrar starfsemi. Málum er oft þannig háttað að erfitt getur reynst að færa fullar sönnur á sekt einstaklinga, þ.e.a.s. að sekt sé hafin yfir allan vafa. Hér er hins vegar lagt til að sönnunarbyrði einkamála nægi ákæruvaldinu til þess að sýna fram á að verðmætin eða eignin séu tilkomin vegna glæpsamlegrar starfsemi. Það þýðir í raun að meti dómstóll það svo að meiri líkur en minni séu á að ávinningur sé ólögmætur, er ákæruvaldinu færð heimild til þess að gera ávinninginn upptækan. Lagt er til að þetta gildi aðeins í þeim tilvikum þar sem um verulegan ávinning er að ræða, eða þar sem brot varða a.m.k. sex ára fangelsi.

Þetta mál er lagt fram í þeim tilgangi að auka líkurnar á því að það takist að endurheimta verðmæti úr hendi þeirra sem í aðdraganda og kjölfar íslenska fjármálahrunsins hafa auðgast með óréttmætum hætti. Einnig er því ætlað að draga úr hvata til brotastarfsemi sem haft getur verulegan fjárhagslegan ávinning í för með sér. Allsherjarnefnd fær nú málið til umfjöllunar og verður það svo í framhaldinu sent til umsagnar. Vera má að nefndin eða umsagnaraðilar telji að skýra þurfi ákvæði frumvarpsins betur og tilgreina nánar í hvaða tilfellum úrræðinu skuli beitt. Það mikilvægasta er að umfjöllunin eigi sér stað og verði fagleg, því hér er sannarlega um mikla hagsmuni að ræða.

Óreiðuskuldir hrunsins

blog

Stærsta einstaka skuldin sem Íslendingar þurfa að greiða vegna hrunsins er afskriftareikningur Seðlabanka Íslands frá stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Til að forða Seðlabanka Íslands frá gjaldþroti, þurfti ríkissjóður að leysa til sín tapaðar kröfur vegna fallinna fjármálastofnanna að andvirði 300 milljarða króna. Reikningurinn úr Seðlabankanum er 60 milljörðum hærri en fjárhæðin sem áætlað er að Icesave reikningurinn endi í með vöxtum. Ólíkt Icesave skuldbindingunum sem fyrst koma til greiðslu eftir sjö ár, þarf almenningur á Íslandi þegar í dag að blæða fyrir reikninginn úr Seðlabankanum í formi hækkaðra skatta og niðurskurðar velferðarþjónustu ríkisins. Skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu munu verða heilan áratug að vinna upp það tjón. Hollt er að hafa þetta í huga við lestur Morgunblaðsins þessa dagana.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. október sl.

Nauðsynlegt að koma í veg fyrir málamyndagerninga og undanskot eigna

blog

Ég lagði fram fyrir nokkrum dögum frumvarp um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Markmið frumvarpsins er að tryggja að hægt verði að ganga frá þeim málum sem upp koma í kjölfar bankahrunsins, án þess að hætta sé á að hagsmunir spillist vegna álags og tímaskorts. Lagt er til að þetta verði framkvæmt á þann hátt að rýmka tímafresti riftunar ráðstafana þrotamanna tímabundið.

Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru í íslensku samfélagi er ljóst að þau tímamörk og frestir sem lögin gera ráð fyrir til að ónýta afturvirkar ráðstafanir þrotamanns sem falla undir lögin eru tiltölulega stuttir og ekki hugsaðir út frá þeim aðstæðum sem við er að glíma nú. Það er fyrirséð að málafjöldi verði gríðarlegur og álag á stofnunum sem koma að þessu ferli á efalaust eftir að stigmagnast á næstu missirum með þeim afleiðingum að kerfið hefur ekki undan og mun lengri tíma tekur að ljúka málum.

Eins er ljóst að fjölmargir aðilar hafa gripið til ráðstafana í kjölfar bankahrunsins sem flokkast geta sem málamyndagerningar og undanskot eigna og getur það ekki liðist að þeir aðilar verði látnir komast upp með slíkt. Til að koma í veg fyrir háttsemi af þessu tagi er lagt til í frumvarpinu að tímamörk og frestir riftunar ráðstafana þrotamanna skuli miðast við 4 ár fyrir frestdag.

Bann við mismunun gegn fötluðum verði sérstaklega tryggt í stjórnarskrá

blog

Þegar mannréttindaákvæðum var bætt inn í stjórnarskrána 1995, náðist því miður ekki samstaða um að tilgreina fötlun sérstaklega sem þátt sem óheimilt væri að byggja mismunun á. Í 65. grein stjórnarskrárinnar kemur fram að allir skuli „vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Upptalningin í 65. greininni tekur að miklu leyti mið af orðalagi í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Má þar nefna alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og mannréttindasáttmála Evrópu.

Frá því að mannréttindaákvæðunum var bætt inn í stjórnarskrána hefur komið fram samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn í mars 2007 og er nú unnið að fullgildingu hans. Markmið samningsins er að útfæra jafnræðisregluna með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í tengslum við fatlað fólk en það er hópur sem sérstök hætta þykir á að geti sætt mismunun. Af þessum sökum er það sjálfsagt og eðlilegt að fötlun verði bætt við upptalninguna í 65. greininni. Ég hef því ásamt þingmönnunum Atla Gíslasyni, Birki Jóni Jónssyni, Ármanni Kr. Ólafssyni og Grétari Mar Jónssyni lagt fram breytingartillögu þess efnis við stjórnarskrárfrumvarpið sem nú er til meðferðar hjá stjórnarskrárnefnd. Það er von mín að þetta hagsmunamál nái fram að ganga, nú við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Sex ár liðin frá innrásinni í Írak

blog

Í dag, 20. mars, eru liðin sex ár frá innrásinni í Írak. Stuðningur Íslands við innrásina, sem var ákvörðun tveggja manna, var veittur í algjörri óþökk yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Slíkt má aldrei henda aftur og því miður er ekki enn að finna ákvæði í stjórnarskránni sem hindrar slíkan gjörning. Ég lagði fram frumvarp þess efnis á síðasta kjörtímabili ásamt samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni.

Þetta ákvæði mun ekki ná inn í þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru til umræðu í þinginu en mikilvægt er að það verði hluti endurskoðaðar stjórnarskrár. Höfundar stjórnarskrárinnar hafa ekki haft hugmyndaflug til að setja sérstök ákvæði um hvernig taka ætti ákvörðun um aðild Íslands að stríði. Ákvörðun tveggja manna fyrir sex árum, fyrir hönd heillar þjóðar, staðfestir því miður þörfina á slíku ákvæði. Aldrei aftur Írak.

Tölurnar úr prófkjörinu birtar

blog
    1. 1.-2. 1.-.3. 1.-4. 1.-5. 1.-6. 1.-7. 1.-8.
1 Jóhanna Sigurðardóttir 2.766 3.024 3.089 3.134 3.154 3.175 3.194 3.217
2 Össur Skarphéðinsson 132 1.182 1.453 1.605 1.715 1.813 1.883 1.962
3 Helgi Hjörvar 51 322 822 1.367 1.655 1.903 2.095 2.267
4 Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 40 282 766 1.104 1.384 1.609 1.786 1.923
5 Skúli Helgason 21 170 540 980 1.277 1.533 1.778 1.964
6 Valgerður Bjarnadóttir 61 405 705 977 1.229 1.448 1.689 1.876
7 Steinunn Valdís Óskarsdóttir 54 402 682 920 1.135 1.386 1.602 1.753
8 Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 40 262 621 883 1.078 1.281 1.455 1.605
9 Mörður Árnason 14 131 341 616 832 1.065 1.284 1.474
10 Anna Pála Sverrisdóttir 19 69 172 328 745 957 1.159 1.352
11 Dofri Hermannsson 19 64 178 408 644 896 1.071 1.268
12 Sigríður Arnardóttir 4 25 97 211 399 606 788 964
13 Jón Baldvin Hannibalsson 163 332 432 519 596 689 766 956
14 Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir 7 35 99 184 329 495 733 869
15 Pétur Tyrfingsson 17 83 156 249 331 456 624 785
16 Jón Daníelsson 4 18 43 76 101 136 175 247
17 Björgvin Valur Guðmundsson 2 12 31 48 76 119 147 208
18 Hörður J. Oddfríðarson 8 17 36 64 89 117 142 201
19 Sverrir Jensson 2 5 14 38 47 58 67 91
                   
3.543 greiddu atkvæði. Á kjörskrá voru 7.743. Kjörsókn var 45,8%.