Þingræða: Hvers vegna þetta fálæti um málefni fatlaðra?

Þingræða

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hún hefur núna skilað forgangslista sínum og þar er hvorki að finna fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun. Eiga þau mál þó að vera til.

Tilskipun um bann við mismunun tók gildi í Evrópusambandinu árið 2000. Nú eru liðin 16 ár án þess að þau réttindi fatlaðs fólks hafi verið lögfest á Íslandi. 153 ríki veraldarinnar hafa fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem aftast standa í þessu efni. Við erum eitt af fjórum ríkjum í Evrópu sem ekki hafa tryggt réttindi fatlaðs fólks samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hverju sætir þetta fálæti? Hvers vegna eru málefni fatlaðs fólks ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Þau liggja fyrir, þau eru til, það þarf ekkert að gera nema koma með þau hingað inn og samþykkja þau. En við finnum forgangsmál um timbur og timburvörur, virðulegur forseti. Já, og við finnum evrópskar tilskipanir frá árinu 2013 þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar af því að þau eru í forgangi.

Ég skora á þingmenn úr öllum flokkum sem vilja vinna að réttindum fatlaðs fólks að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og gera það að kröfu úr öllum þingflokkum að sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks, sem lögfest hafa verið um alla Evrópu og sem þrír fjórðu hlutar (Forseti hringir.) af öllum ríkjum veraldarinnar hafa þegar fullgilt, verði líka látin taka gildi á Íslandi.


Ræða flutt í umræðum um störf þingsins 29. apríl 2016.

Formannskjör í Samfylkingunni

Samfylkingin
  • Hefst kl. 12 á hádegi laugardaginn 28. maí og stendur til kl. 12 á hádegi föstudaginn 3. júní
  • Allir skráðir félagsmenn geta tekið þátt 
  • Smellið hér til að taka þátt í formannskosningunni
  • Þeir sem vilja ganga til liðs við Samfylkinguna geta skráð sig hér 
  • Til þess að vera á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni þarf að skrá sig fyrir kl. 12 á hádegi laugardaginn 7. maí
  • Nánari upplýsingar um formannskjörið má finna á heimasíðu Samfylkingarinnar xs.is
  • Þátttakendur í formannskjörinu fá sent lykilorð í heimabanka og geta þá kosið milli þeirra frambjóðenda sem í kjöri eru. Nú þegar hafa boðið sig fram auk mín Árni Páll ÁrnasonGuðmundur Ari Sigurjónsson, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir
  • Hér má sjá bréf mitt til Samfylkingarfólks þar sem ég fór yfir áherslur mínar um breytingar í Samfylkingunni. Sjá einnig myndband og annað nýlegt efni hér á síðunni.

Forystulaust sumarland

Blaðagreinar

Sumardagurinn fyrsti eykur okkur vongleði um bjartari daga og betri tíð. Það er ekki vanþörf á í vetrarlok þegar forystuleysið við landsstjórnina er orðið miklu meira en vandræðalegt. Nú síðast hefur forsetinn hætt við að hætta á þeirri forsendu beinlínis að óvissan sé algjör um landsstjórnina. Forsætisráðherrann hraktist nýlega frá vegna hneykslis sem rúið hefur tvo aðra ráðherra trausti. Enginn veit hver stjórnar Framsóknarflokknum. Forsætisráðuneytið í höndum flokks sem ekki hefur stuðning meðal þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir vita ekki sjálfir hvaða mál þeir þurfa að afgreiða. Ofan á þetta allt bætist að ríkisstjórnin veit ekki hvenær hún ætlar að fara frá og getur ekki sagt kjósendum hvenær þeir fái að kjósa. Ríkisstjórnin virðist alveg hafa gleymt því að hlutverk hennar er að hafa forystu og eyða óvissu en ekki hanga í reiðanum og hrekjast undan veðrum. Auðvitað ætti að kjósa í vor því að óbreyttu verður landið forystulaust í allt sumar engum til gagns.

(meira…)

Þegar skorið var undan Alþingi

Blaðagreinar

Forsætisráðherra reynir nú að láta landsmenn ræða hvar Landspítalahúsið eigi að vera, svo þeir hætti að ræða lélegan aðbúnað á spítalanum, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fjárskort og óhóflegan kostnað sjúklinga. Því elsta smjörklíputrix í heimi er að láta Íslendinga rífast um staðsetningu á húsi, svo það sem máli skiptir gleymist sem er innihaldið.

Þegar byggja átti þinghús 1879 vildu menn reisa það á Arnarhóli. Landshöfðingi hafði sérhagsmuni af beit kúa á Arnarhólstúninu og hafnaði. Þá tóku þeir grunn í Bankastrætisbrekkunni, en var svo sagt sem var að það væri ómöguleg staðsetning. Þrátt fyrir aðvaranir var þá tekinn grunnur þar sem bílastæði er nú við Vonarstræti. Sá fylltist af vatni eins og spáð hafði verið. Byggðu menn því það Alþingi sem nú stendur beint fyrir framan hitt húsið í bænum, Dómkirkjuna. Þá höfðu glatast svo miklir fjármunir í rifrildinu öllu að neðsta hæðin var skorin af Alþingishúsinu í sparnaðarskyni.

Látum það ekki líka henda Landspítalann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars

Verðtryggingarvitleysan

blog

Það er skrýtið að sumir einlægir Evrópusinnar taki að sér málsvörn fyrir hina séríslensku verðtryggingu og verða fyrir vikið eins og talsmenn þess vaxtaokurs sem hún er hluti af og einkennir íslensku krónuna. Þó erum það einmitt við Evrópusinnarnir sem berjumst fyrir raunverulegri framtíðarlausn til að lækka hér vexti verulega. Skilaboð mín til Samfylkingarfólks í þessu efni eru skýr. Við verðum að hætta að halda því fram að allt verði áfram og óhjákvæmilega dýrt og ósanngjarnt þangað til við fáum evruna. Við verðum að breyta stefnu okkar afdráttarlaust, ráðast að vaxtaokri og hafa svör við því hvað við ætlum að gera í peningamálum þangað til evran kemur. Við eigum að skilja sundur fjárfestingar- og viðskiptabanka, brjóta upp fákeppni, draga úr kostnaði og greiða fyrir samkeppni, auka aðhald með því að minnka vægi verðtryggingar, setja skorður við þjónustugjöldum o.fl. o.fl. Því þó við höfum eygt von um hraða inngöngu í annað myntsvæði í neyðarástandinu 2008 þá er nú ljóst að það mun taka tíma að komast í evruna. Þangað til þurfum við að hafa pólitík í stað þeirrar nauðhyggju að ekkert verði að gert þangað til.

(meira…)

Tilkynning um formannsframboð

Samfylkingin

Með eftirfarandi bréfi kynnti ég Samfylkingarfólki í síðustu viku formannsframboð mitt:

Kæri félagi,

Samfylkingin þarfnast breytinga. Samfylkingarfólk hefur krafist landsfundar og formannskjörs sem framkvæmdastjórn hefur ákveðið að flýta til vors. Formaðurinn sendi flokksmönnum bréf þar sem hann segir að þessi alvarlega staða hafi skapast á löngum tíma og sé á sameiginlega ábyrgð okkar. Þar er tæpt á mistökum sem við getum verið sammála eða ósammála um í einstökum atriðum en ég fagna því tækifæri sem skapast hefur til opinnar umræðu í flokknum um þessi mál og mörg fleiri.

Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð.

(meira…)

Það þarf að breyta kerfinu sem hrundi

Blaðagreinar

Í kjölfar hrunsins reis mjög hávær krafa í þjóðfélaginu um gagngerar breytingar á stjórnkerfinu. Það var sannarlega ætlun síðustu ríkisstjórnar að ráðast í slíkar breytingar. Um þúsund manns tóku þátt í þjóðfundi þar sem lýðræðisskipan landsins var rædd og í kjölfarið var kosið sérstakt stjórnlagaþing. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 undirstrikaðist skýr vilji þjóðarinnar til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þessum leiðangri tókst því miður ekki að ljúka. Vonandi nær sú stjórnarskrárnefnd sem nú er að störfum saman um tillögur að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni og sérstaklega það sem þjóðaratkvæðagreiðslur varðar. Hvort sem það tekst eða ekki er ljóst að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þurfa að vera forgangsmál í næstu kosningum og verða að veruleika á nýju kjörtímabili.

(meira…)

Áskorunin

Blaðagreinar

Kerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sama fjármálakerfi og féll. Það er sami veiki gjaldmiðillinn, sama vonda verðtryggingin, sömu okurvextirnir og bráðum líka myntkörfulánin, sama fákeppni á bankamarkaði sem nú á aftur að einkavæða. Vaxandi spilling og þenslumerkin eru hvarvetna. Sama stýrivaxtapólitík heldur uppi óhóflegum kostnaði fyrirtækja og heimila og laðar erlenda spákaupmenn aftur til landsins. Grátbrosleg fullkomnun yrði svo ef sömu hóparnir eignuðust sömu bankana aftur.

Þessi þróun er í anda þeirra sem telja að við höfum bara orðið fórnarlömb alþjóðlegrar kreppu, hér hefði allt reddast ef ekki væru útlöndin. Eftir því sem frá líður eflast líka þau gríðarlegu sérhagsmunaöfl sem hafa tryggt sér hæsta raunvaxtastig í okkar heimshluta og vilja það kerfi áfram óbreytt.

Pólitísk forysta
Ekki voru gerðar nægilegar breytingar í kjölfar hrunsins og það dugar ekki að bíða eftir evrunni með þær.

Þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil þurfum við pólitíska forystu um að breyta kerfinu. Vextir eru hér of háir enda fjármálakerfið of dýrt. Brjóta þarf upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána.

Ræða þarf raunvaxtakröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald o.s.frv.

Breytingar á bankakerfinu eru nefnilega stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi, því þó Íslandi vegni blessunarlega vel geta ytri skilyrði breyst hratt og kreppur koma aftur og aftur.

En þetta er líka stærsta áskorun heimsins því reglurnar núna auka sífellt og sjálfkrafa ójöfnuð og sóun, fyrir fáránlega auðsöfnun örfárra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar sl.

Einkavæðing bankanna taka tvö

Blaðagreinar

Það er mikilvægt að læra af dýrkeyptri reynslu sem við höfum glímt við frá einkavinavæðingu bankanna fyrir rúmum áratug. Spillingin og skammsýnin sem hana einkenndi kostaði m.a. tæknilegt gjaldþrot helmings fyrirtækja landsins, skuldir tugþúsunda heimila stökkbreyttust og landið átti ekki gjaldeyri til að standa í skilum. Upphaf ógæfunnar má ekki síst rekja til hinnar gamalkunnu aðferðar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að skipta bönkunum á milli sín. Þessvegna er skynsamlegt að hafa áhyggjur þegar þessir sömu flokkar eru nú aftur uppteknir af bankasölu.

Hvað hefur breyst?

Um leið er sanngjarnt að spyrja hvort eitthvað hafi breyst og hvort við höfum ástæðu til að treysta þessum flokkum betur nú en þá. Óskandi að svo væri en því miður bendir margt til annars. Þrennt skal hér nefnt af mörgum slæmum fyrirboðum. Í fyrsta lagi samþykkti Alþingi á síðasta kjörtímabili rannsókn á einkavæðingu bankanna. Núverandi stjórnarflokkar hafa neitað að framkvæma hana. Í öðru lagi hefur fjármálaráðherra reynt að leggja niður Bankasýsluna og flytja umsjón með eignarhaldi inn í ráðuneyti til sín. Og í þriðja lagi höfum við horft upp á sölu eignarhluta eins og í Borgun og Símanum sem skapa ekki vonir um jafnræði, gagnsæi og fagmennsku við einkavæðingu. Áhyggjurnar minnka ekki við það þegar lögð er ofuráhersla á að semja við erlenda kröfuhafa um að fá bankahlutbréf frekar en að taka við greiðslu í peningum með stöðugleikaskatti.

Óbreytt bankakerfi

Undraveröld íslensku krónunnar er þannig  að eignarhald viðskiptabanka er ávísun á fákeppnisaðstöðu með mikilli gróðavon. Við höfum enn sömu myntina og þar með  sama fákeppnismarkaðinn, saman eru enn fjárfestingar og viðskiptabankar og ekkert tryggir dreift eignarhald eða kemur í veg fyrir að ráðandi eigendur misnoti banka sem fyrr. Við þurfum þessvegna róttækar breytingar á bankakerfinu og tryggja að ekki sé unnt að einkavinavæða þá  áður en hreyft er við eignarhaldi ef við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember sl.